Gönguleiðir
Í Skagafirði er að finna fjölbreyttar og fagrar gönguleiðir, hvort sem er fyrir stuttar göngur og létta útiveru, eða lengri og meira krefjandi ferðir fyrir göngugarpa. Það er magnþrungið að sjá Skagafjörð taka á sig gjörólíka mynd þegar horft er niður í fjörðinn af fjöllunum sem umlykja héraðið eða til hálendis Íslands og nágrannabyggða.
- Allt árið
- Haust
- Sumar
- Vetur
- Vor
- Öll erfiðleikastig
- Auðvelt
- Erfitt
- Miðlungs
Gönguleið með frábæru útsýni yfir Gönguskörð, Sauðárkrók og út á Skagafjörð. Ekið út af Þverárfjallsvegi, nr 744 við gönguleiðaskiltið vestan við bæinn Skarð og ekið upp ca 300m norðan við Hraksíðuá. Á leiðinni eru hlið sem mikilvægt er að loka aftur. Við upphafsreit er upplýsingaskilti um gönguleiðina á íslensku. Gengið er eftir stikaðri leið að vörðu á Einhyrning suðaustast á Tindastóli, 795 m.y.s. Falleg og skemmtileg leið með góðu útsýni yfir Sauðárkrók og fjörðinn.
Þægileg ganga í gegnum skóg fyrir ofan Varmahlíð með fallegu útsýni yfir Skagafjörð. Á leiðinni eru bekkir þar sem tilvalið er að tilla sér og fá sér hressingu eða einfaldlega njóta náttúrunnar. Leiðin er hringur sem endar við upphafsstað.
GPS upphafspunktur við íþróttavöllinn: 65.551717, -19.451903
Leiðin hefst við norðurenda götunnar Háuhlíðar á Sauðárkróki, upp að Gilsbungu og aftur til baka. Ferðin hefst á göngu eftir jeppavegi sem liggur allt suður að vatnsveitumannvirkjum við rætur Gilsbungu. Á leiðinni er farið í gegnum hvítt hlið. Góð gönguleið. Mesta hæð við rætur Gilsbungu er um 500 m.y.s. Til viðbótar er ganga á Staðaröxl, 836 m.y.s. og/eða Gilsbungu, 842 m.y.s., erfiðisins virði með frábæru útsýni. Stytta má leiðina og ganga aðeins að umhverfislistaverkinu Útsjón eftir Ægi Ásbjörnsson sem stendur við kletta fyrir ofan bæinn Brennigerði.
Gangan inniheldur glæsilegt útsýni yfir Skagafjörð og Sauðárkrók. Skemmtileg leið þar sem hægt er að sjá nálæga bæi og sveitar út frá öðru sjónarhorni og virða
fyrir sér gróður, berg og vörður. Gengið er frá skíðaskálanum í Tindastól að malarnámunni við Hraksíðuá. Mesta hæð 594 m.y.s
Frábær gönguslóð með hrikalega flottu útsýni yfir bæinn og út á fjörðinn. Gengið er upp Kirkjustíginn og suður fyrir hornið á kirkjugarðinum en þar kemur þú inn á slóða sem leiðir þig áfram suður nafirnar. Upplagt fyrir alla fjölskylduna að ganga þarna í rólegheitunum og virða fyrir sér bæinn og hobby búskapinn á Nöfunum.
Auðveld og skemmtileg ganga hringinn í kringum Áshildarholtsvatn. Fuglalíf við og á Áshildarholtsvatni er einstakt. Ábúendur við vatnið hafa sýnt mikla fyrirhyggju og sameinast um að friða vatnsbakkann umhverfis vatnið og það fuglalíf sem á vatninu er. Gestum er bent á að halda sig innan göngustígsins að Sjávarborg til að trufla ekki fuglalífið. Helstu fuglategundir sem sjást eru Flórgoði, Stokkönd, Skúfönd, Gargönd, Duggönd, Urtönd, Rauðhöfði, Grágæs, Álft, Jaðrakan, Hrossagaukur. Sjávarborgarkirkja er staðsett á leiðinni, byggð árið 1853. Lengd leiðar 5 km.
Hróarsgötur er gömul þjóðleið suðvestan í Heiðarhnjúki í Gönguskörðum. Skemmtileg ganga sem inniheldur fallegt útsýni yfir sveitir og bæi í nágrenni.
Gengið er af skíðalyftuvegi sunnan við Lambá, þar sem hægt er að leggja bíl, fylgt er götu á skilum í landslaginu suðaustur með Heiðarhnjúki austur fyrir Veðramót og þar niður á veg 744. Á leiðinni eru tveir leiðarpunktar þar sem farið er í gegnum hlið.
Litli Skógur og Skógarhlíðin eru útivistarsvæði í og við Sauðárgil á Sauðárkróki. Þar er mikill gróður og skjólsælt og margir stígar sem gaman er að kanna. Göngustígarnir liggja meðfram ánni ofan í gilinu og tengjast svo Skógarhlíðinni við gamla vatnshúsið sem er þar rétt fyrir ofan. Virkilega falleg og skemmtileg leið fyrir alla fjölskylduna með frábæru útsýni yfir Skagafjörð og bæinn. Stórskemmtilegt svæði þar sem upplagt er að taka með sér nesti og njóta útivistarinnar.
Mælifell er 1138 m hátt og er eitt af einkennistáknum Skagafjarðar. Fjallið gnæfir yfir önnur fjöll í innsveitum Skagafjarðar og sést víða að. Frá toppi Mælifellshnjúks er óviðjafnanlegt útsýni yfir Skagafjörð og nærsveitir.
Gps upphafspunktur göngu: 65° 22.940’N, 19° 23.945’W
Göngustígurinn frá Örlygsstöðum liggur frá bílastæðinu að minnismerki um orrustuna við Örlygsstaði. Stígurinn að fossinum heldur áfram meðfram girðingunni upp að ánni. Farið er yfir ána og heldur lengra upp hæðina. Þegar komið er að annari á er gengið meðfram henni upp að fossinum. Gangan endar við sjónarhorn fossins og farið er sömu leið til baka. Mikilvægt er að vera meðvitaður um kindur eða hesta sem eru á svæðinu.
Glerhallavík er vík undir hömrum Tindastóls á Reykjaströnd í Skagafirði. Hún er þekkt vegna glerhalla sem voru þar í fjörunni en það eru holufyllingar úr kvarsi sem hafa losnað úr berginu og slípast í brimi í fjörunni. Gangan hefst við gistiheimilið Reyki. Gengið er að Glerhallavík og aftur til baka. Ekið er að Reykjum á Reykjaströnd, farið ofan túns og eyðibýlis ofan í Sandvík, en síðan gengið undir bökkunum út í Glerhallavík. Gönguleiðin er að hluta stórgrýtt fjara svo vanda þarf skófatnað. Tilvalið að fara í Grettislaug eftir gönguna og njóta. Steinataka er með öllu óheimil.
Glóðarfeykir er tilkomumikið og formfagurt fjall með tröppulaga hraunlagastöflum fyrir ofan bæinn Flugumýri. Leiðin upp á Glóðafeyki hefst við Flugumýrarkirkju og er gengið upp á Glóðafeyki að norðanverðu. Á leiðinni er farið yfir prílu og í gegnum hlið sem mikilvægt er að loka á eftir sér. Fjallið er tignarlegt og á toppnum er glæsilegt útsýni yfir Skagafjörð.
Mjög falleg strandlengja við Sauðárkrók. Gengið er eftir svartri ströndinni alla leið niður að ósum Héraðsvatna. Á leiðinni er gengið fram hjá skipsflaki sem er orðið nokkurskonar kennileyti á sandinum. Flakið er af skipinu Ernunni sem dregin var frá Sauðárkrókshöfn í kringum 1970 en til stóð að brenna skipið við Borgarsand. Ekki tókst betur til en hún brann ekki og endaði sem draugaskip í fjöruborðinu. Frábær staður fyrir ljósmyndara. Mjög gott aðgengi er að fjörunni allan ársins hring.
Molduxi er eins konar bæjarfjall Sauðkrækinga enda staðsett rétt við Sauðárkrók. Fjallið er 706 m hátt og er nokkuð auðvelt uppgöngu. Þaðan er víðsýnt yfir Skagafjörð og liggur vinsæl gönguleið upp á fjallið frá Hótel Miklagarði upp í gegnum Litlaskóg eftir nokkuð sýnilegri slóð. Molduxi er hluti af leifum fornrar megineldstöðvar og er þar að finna mikið af líparít.
Kotagil er fallegt gljúfur á mörkum Silfrastaða og Ytri-Kota í Blönduhlíð í Skagafirði. Gönguleiðin liggur frá bílastæði við þjóðveg 1. Gengið er inn gljúfrið meðfram ánni að fossi sem fellur innst í gljúfrið. Stórgrýtt er á svæðinu.
Bólugil er mikið og fallegt gil staðsett við bæinn Bólu í Blönduhlíð í Skagafirði. Í gilinu er falleg fossaröð þar sem áin fellur um 140m fram og myndar 7 fossa í röð. Í gilinu má lesa áhugaverða jarðfræðisögu. Einnig er sagt að skessan Bóla hafi haldið sig í tilkomumiklu gljúfrinu. Hægt er að leggja bíl við þjóðveg 1 og hefja gönguna þar eða keyra upp malarveg meðfram ánni og stytta gönguna örlítið. Haldið er upp gilið, að fossinum og aftur að byrjunarreit. Hentug gönguleið þar sem njóta má fallegrar náttúru.
Fleiri en ein gönguleið liggur að Hegranesvita og er þessi leið töluvert lengri en býður upp á stórbrotið útsýni á leiðinni. Gengið er frá gömlu brúnni við vesturós Héraðsvatna til norðurs að Hegranesvita. Hægt er að leggja bílnum vestan við gömlu Héraðsvatnabrúna eða hjá styttu Jóns Ósmanns. Gengið er niður í Furðuströnd framhjá skýli Jóns Ósmanns, en svo nefndi Jón ströndina og gengið upp úr fjörunni við enda hennar. Fyrst um sinn er nokkuð ógreinilegur slóði eftir þýfðu landi við bjargbrúnina en fljótlega er komið inn á gamlar kindagötur og hægt að ganga eftir bökkunum alla leið út að Hegranesvita. Gengið er framhjá Naustavík en þar eru tóftir af gömlum verbúðum. Mikið fuglalíf er í klettunum og ægifagurt útsýni yfir Tindastól og eyjarnar úti á Skagafirði. Gengið er sömu leið til baka.
Upphafsreitur Gps: 65° 44.895’N, 19° 33.052’W
Auðveld og hentug ganga fyrir alla fjölskylduna að Hegranesvita. Keyrt er að afleggjaranum að Hegranesvita og gengið út í vita eftir gömlum vegslóða. Á sumrin má sjá dýralíf, þ.á.m. hesta, kindur og fuglalíf. Þegar komið er að Hegranesvita má sjá glæsilegt útsýni út fjörðinn.
Upp í Gvendarskál er stutt en nokkuð brött gönguleið sem liggur að altari Guðmundar góða biskups. Slóðinn liggur upp í gegnum skóginn, er vel stikaður en svolítið grýttur á köflum. Skemmtileg gönguleið í fögru umhverfi með útsýni yfir Hjaltadal og út á Skagafjörð. Við altarið finnur þú kassa með gestabók. Gengið er sömu leið til baka.
Lagt er af stað frá skíðasvæði Tindastóls. Í byrjun er leiðin brött en vel þess virði þar sem við tekur sléttara undirland og glæsilegt útsýni yfir Skagafjörð og Sauðárkrók. Gengið er austur yfir Stólinn að Einhyrningshorni. Þar er varða og gestabók þar sem einnig er tilvalið að tylla sér og fá sér nesti áður en haldið er sömu leið til baka.