Velkomin í Skagafjörð

Í Skagafirði er hægt að njóta bæði ríkulegs menningararfs og blómlegs mannlífs. Héraðið er kjörinn áfangastaður til að upplifa og njóta íslenskrar náttúru, viðburða árið um kring og afþreyingar fyrir alla fjölskylduna. Sögustaðir eru fjölmargir, einnig söfn og sýningar. Kynntu þér hér á vefsíðunni hvað Skagafjörður býður upp á og fáðu þjónustu starfsfólks Upplýsingamiðstöðvanna í Varmahlíð eða á Sauðárkróki til að aðstoða þig við að skipuleggja frábært frí í Skagafirði.

Upplýsingamiðstöðvar í Skagafirði

Upplýsingamiðstöðvar Skagafjarðar

Upplýsingamiðstöðvarnar í Varmahlíð og á Sauðárkróki eru opnar allan ársins hring. Þar er hægt að nálgast kort, bæklinga og allar almennar upplýsingar um þá þjónustu og afþreyingu sem í boði er í Skagafirði.

Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð

Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð er staðsett í húsnæði Alþýðulistar við hliðin á Olís í Varmahlíð

Upplýsingamiðstöðin á Sauðárkróki

Upplýsingamiðstöðin á Sauðárkróki er staðsett í Gránu þar sem sýndarveruleikasafn 1238 er til húsa.

Þéttbýliskjarnar í Skagafirði

Sauðarkrókur

Sauðárkrókur er stærsti þéttbýliskjarninn á Norðurlandi vestra. Á Sauðárkróki er fjölbreytt þjónusta; sýningar, söfn, verslanir, veitingar, gisting, sjúkrahús, verkstæði, golfvöllur, skíðasvæði, íþróttavöllur, ærslabelgur, strandblakvöllur, sundlaug o.fl.

Í Aðalgötunni er verslun Haraldar Júlíussonar sem starfað hefur óslitið frá árinu 1919. Þar er einnig að finna ýmsar sérverslanir, veitingastaði og fyrsta flokks handverksbakarí. Tvær framúrskarandi sýningar eru í Aðalgötunni; Puffin & Friends og 1238 – Baráttan um Ísland. Þar er einnig að finna upplýsingamiðstöð. Stuttan spöl frá Sauðárkróki eru vinsælir ferðamannastaðir eins og Grettislaug og gamli bærinn í Glaumbæ. Daglegar ferðir eru farnar í Drangey frá smábátahöfninni á Sauðárkróki yfir sumartímann og eftir samkomulagi yfir vetrarmánuðina.

Brekkurnar fyrir ofan bæinn kallast Nafir og eru fornir sjávarkambar. Á Nöfunum er útsýnisskífa þar sem hægt er að njóta þess að horfa yfir fjörðinn. Einnig er golfvöllur upp á Nöfum. Ótal gönguleiðir er að finna á Sauðárkróki og nágrenni.

Sauðárkrókur er einn öflugasti byggðarkjarni landsbyggðarinnar þar sem saman fer öflug útgerð, úrvinnsla afurða af stóru landbúnaðarsvæði og þjónusta sem jafnast á við það besta sem býðst á landsbyggðinni.

Austan við Sauðárkrók er Borgarsandur, tæplega fjögurra kílómetra löng svört sandfjara. Þar er upplagt að labba um og njóta útsýnisins út fjörðinn þar sem eyjarnar Drangey og Málmey ásamt Þórðarhöfða blasa við. Við Áshildarholtsvatn er fjölskrúðugt fuglalíf en þar má finna upplýsingaskilti um fugla. Mikið fuglalíf er einnig við ósa Héraðsvatna og á Miklavatni.

Varmahlíð

Varmahlíð er skemmtilegur áningarstaður ferðamanna við þjóðveg nr. 1; byggðakjarni með fjölbreytt framboð þjónustu. Þar eru m.a. söluskáli, bensínstöð, matvöruverslun og veitingaþjónusta. Upplýsingamiðstöð ferðamanna er staðsett við hliðina á Olís versluninni og veitingaskálanum. Þar kynnir handverksfélagið Alþýðulist skagfirskt handverk. Í Varmahlíð er barnvæn sundlaug með rennibrautum, heitum potti og gufubaði, sparkvöllur, körfuboltavöllur og ærslabelgur er staðsettur á tjaldstæðinu.

Gistimöguleikar í Varmahlíð og nágrenni eru fjölbreyttir en hægt að fá gistingu í orlofshúsum, bændagistingu, framúrskarandi tjaldsvæði og á hóteli.

Menningarhúsið Miðgarður er staðsett í Varmahlíð, þar sem boðið er upp á ýmsar skemmtanir árið um kring.

Fjölbreyttar gönguleiðir eru í Varmahlíð og nágrenni. Á góðviðrisdegi er gaman að ganga um í skógræktinni á Reykjarhólnum, á göngustígum sem liggja m.a. upp að útsýnisskífu, þaðan sem útsýni er einstakt yfir miðhéraðið. Reykjafoss er staðsettur um 7 km frá Varmahlíð, en hann er einstök náttúruperla. Þá er einnig einstakt að ganga á Mælifellshnjúkinn, Glóðafeyki, Molduxa og Tindastól fyrir þá sem kjósa lengri og meira krefjandi gönguferðir.

Gott framboð þjónustu er fyrir ferðamenn í sveitunum sunnan Varmahlíðar. Þar er fjölbreytt úrval gistingar, veitingaþjónustu og margir valkostir í afþreyingu, s.s. hestaferðir og hestasýningar, flúðasiglingar, gönguferðir, söfn og kirkjur. Þar eru merkir sögustaðir á annarri hverri þúfu og alls staðar stutt í fallega náttúru. Í Steinstaðabyggð er Aldamótarskógur sem gaman er að ganga um.

Austurdalur er náttúru- og útivistarperla sem vert er að skoða nánar, en á leið þangað má fara yfir Jökulsá með kláfi (við Skatastaði), ganga um Merkigilið eða koma við í Ábæjarkirkju. Hægt er að komast inn á hálendið úr Skagafirði, bæði Kjalveg og Sprengisandsleið.

Hólar í Hjaltadal

Hólar eru einn sögufrægasti staður Íslands og biskupssetur um aldir. Kirkja hefur staðið á Hólum frá 11. öld, en núverandi kirkja var reist 1763. Hún er byggð úr rauðum sandsteini úr fjallinu Hólabyrðu og er elsta steinkirkja á Íslandi.

Háskólinn á Hólum hefur stækkað ört á síðustu árum og hefur fjöldi nemendagarða verið byggður. Íbúar Hóla eru yfir tvö hundruð talsins að vetri til. Skólinn sérhæfir sig í ferðamálafræðum, hrossarækt og reiðmennsku, auk fiskeldis og fiskalíffræði.

Fornleifauppgröftur hefur farið fram á Hólum síðustu ár og hafa yfir 40 þúsund munir fundist. Úrval forngripa er til sýnis í gamla skólahúsinu. Um skóginn hlykkjast spennandi göngustígar sem leiða mann inn í undraheima lifandi náttúru þessa forna sögustaðar.

Á Hólahátíð, sem er jafnan um miðjan ágúst eru margskonar viðburðir á vegum kirkjunnar s.s. Pílagrímagöngur, helgihald og aðrir menningarviðburðir.

Laufskálarétt í Hjaltadal er ein vinsælasta stóðrétt landsins en þangað mæta árlega allt að þrjú þúsund gestir og er af mörgum talin drottning stóðréttanna.

Hofsós

Hofsós er lítið kauptún við austanverðan Skagafjörð. Saga Hofsóss, sem lengi var aðal verslunarstaður Skagfirðinga, spannar allt að 400 ár.

Gæsileg sundlaug er staðsett á Hofsósi en frá sundlauginni blasir við útsýni yfir Drangey og út fjörðinn. Í nágrenni sundlaugarinnar, í fjörunni neðan við bæinn er Staðarbjargarvík; gríðarfallegt stuðlaberg sem ekki má láta framhjá sér fara. Grafarósinn er einnig í göngufæri, en þar eru rústir af fornum verslunarstað og afar fallegt umhverfi.

Notaleg stemning er við Hofsána, þar sem gömlu húsin standa fallega uppgerð í brekkunni ofan við bryggjuna. Þar er Pakkhúsið (1772), eitt elsta bjálkahús landsins, sem og forvitnilegar og fróðlegar sýningar í húsum Vesturfarasetursins sem eru byggð í gamla stílnum. Gaman er að rölta niður í gamla bæjarhlutann og yfir göngubrúna á Hofsá.

Samgönguminjasafn Skagafjarðar er staðsett í Stóragerði, 12 km frá Hofsósi. Þar er ótrúlegt safn gamalla bíla og tækja sem vert er að skoða. Yfir 100 tæki eru til sýnis í salnum og má þar nefna bíla, rútu, motorhjól, sleða, búvélar, flugþyt og ekki má gleyma öllu því smádóti sem tengist samgöngusögu Íslendinga. Fyrir utan safnið og í kringum það má svo áætla að séu í kringum 250-300 bílar og tæki í misgóðu ásigkomulagi sem flestum gestum okkar þykir ótrúlega gaman að skoða.

Ýmis afþreying og þjónusta er í boði fyrir ferðamenn á Hofsósi; verslun, veitingahús, gisting, tjaldstæði, verkstæði, sundlaug, sparkvöllur og ærslabelgur.

Steinsstaðir

Á Steinsstöðum er fjölbreytt ferðaþjónusta þar sem náttúran fær að njóta sín. Margar skemmtilegar gögnuleiðir eru á Steinsstöðum, úrval af gistimöguleikum ásamt þúsundaldarskógi sem er tilvalinn til gönguferða. Hægt er að fara í flúðasiglingar og á kajak ásamt því að góð tjaldstæði eru á svæðinu sem eru tilvalin fyrir fjölskyldumót.

Fljót

Fljótin eru staðsett milli Hofsóss og Siglufjarðar. Mikil náttúrufegurð er í Fljótum og mikið úrval af þjónustu fyrir ferðamenn. Tjaldstæði og sundlaug eru í Fljótum ásamt flottum gönguleiðum og veiðiám.