Fuglaskoðun

Í Skagafirði og nærsveitum er fuglalíf með því blómlegasta sem þekkist á Íslandi. Í eyjunum á Skagafirði, Drangey, Málmey og Lundey, eru varpstöðvar hundruða þúsunda sjávarfugla. Í héraðinu sjálfu má svo einnig finna eitt mesta votlendissvæði landsins og er það án efa með mikilvægustu fuglasvæðum landsins. Mikill fjöldi fugla verpir innan þess, fellir þar flugfjaðrir og kemur þar við á leið sinni til og frá landinu. Hluti af votlendissvæði Skagafjarðar hefur verið friðaður með tilliti til fuglalífs og friðlandið við Miklavatn og Borgarskóga hefur verið sett á lista Bird Life International yfir mikilvæg fuglasvæði í Evrópu.

Skagafjörður er því vel varðveitt paradís fuglaskoðenda en á tiltölulega afmörkuðu svæði eru sjófuglar, vað- og votlendisfuglar, mófuglar, spörfuglar, hænsnfuglar og ránfuglar. Aðstæður til fuglaskoðunar eru jafnframt mjög góðar. Á fjórum fuglaskoðunarstöðum í nágrenni Sauðárkróks (sjá kort í miðopnu) hafa verið sett upp fuglaskilti með upplýsingum um þær fjölmörgu tegundir sem þar er að finna.